Sjálfshöfnun

sjálfshöfnSjálfshöfnun er ávísun á kvíða og þunglyndi. Þegar við leyfum okkur
ekki að vera til, vera frjáls og eiga okkar tilverurétt þá erum við að
kúga okkur. Það getur enginn bæði kúgað sig og verið glaður og hamingjusamur.

Hvað er sjálfshöfnun?  Hún getur birst á margan hátt, m.a. í því að
segja sér stöðugt að manni eigi ekki að líða á ákveðinn hátt, að manni
eigi ekki að finnast eitthvað eða að manni eigi að líða á einhvern ákveðin hátt og að upplifun manns sé líklega bara röng eða byggð á röngum hvötum.

Þegar þú upplifir eitthvað ákveðið og finnst eitthvað ákveðið en bælir
það niður því þú veist að þínir nánustu sjá hlutina á annan hátt og
munu ekki vera sammála þér, þá er um  sjálfshöfnun að ræða.

Ef þú stígur ekki úr því mynstri sem sjálfshöfnun skapar þá er alveg sama hvaða ráð þér eru gefin til slökunar eða meðhöndlunar á kvíða, þú meðtekur það ekki, því þú ert að hafna þér og segja þér að þú sért ekki eins mikilvæg og þínir nánustu. Að þú
eigir í raun ekki tilverurétt og þess vegna kvíðir þér hvern dag að
vera til.

Okkar nánustu eru okkur mikilvæg, fyrir margt auðvitað en aðallega
vegna þess að þau elska okkur skilyrðislaust. Hjá okkar nánustu fáum
við að vera við sjálf án þess að vera dæmd, án þess að eiga það á hættu
að vera hafnað þó við séum ósammála. Skilyrðislaus elska er það
sem allir þrá og í henni vöxum við og blómstrum.
En ef þú hafnar þér stöðugt þá nærðu ekki að þyggja þessa elsku því þú
ert fyrirfram búin að ákveða að fólk hafni þér eða dæmi.

Því miður er það stundum svo að okkar nánustu hafa ekki getuna, þroskann
eða viljann til að elska okkur skilyrðislaust og þá þurfum við að
endurskoða okkar stöðu gagnvart viðkomandi það er eins með vini okkar,
oft eru vinir okkar ekki tilbúnir til þess að eiga í nærandi,
heilbrigðum og sönnum samskiptum og þá þurfum við að skoða það vel
hvað þessi samskipti eru að gefa okkur.

Hefur þú skoðað það hvort þú viljir eyða tíma þínum í að vera í yfirborðslegum
samböndum við fólk sem þú þráir innileg og sönn samskipti við? Góður
vinskapur, náin sambönd innihalda traust, virðingu og skilning,  Innileg og sönn
samskipti þar sem báðir einstaklingar fá að vera þeir sjálfir á allan
hátt, með sínar upplifanir, tilfinningar og viðhorf. Ef þú kemst að því fyrir þig að þú viljir eiga í þannig samskiptum en kemst að því að vinur eða ættingji
vilji það ekki þá gætir þú þurft að endurskoða hvers virði sambandið er þér, þar
sem yfirborðsleg samskipti, varnar samskipti eða samskipti sem byggð
eru á vantrausti gefa ekkert nema hugarangur og sorg.

Það er gott að spegla sig í augum einhvers sem
maður treystir vel því stundum eru hvatir okkar eigingjarnar eða við í
gömlum mynstrum sem við viljum uppræta en eru að hafa áhrif á sýn okkar með gömlum sársauka og stundum teljum við aðra hafna okkur þegar við erum í raun að hafna okkur sjálf.
Stattu með þér, vertu til!! Vertu sönn/sannur og þá ferðu
að finna frelsið og gleðina fyrr en þig grunar.

 

Díana Ósk Óskarsdóttir, Guðfræðingur og ICADC ráðgjafi

Fyrrum formaður FÍFV.