Að rjúfa einangrun

einangrunÞað eru eðlileg viðbrögð að vilja hlúa að þeim sem eru okkur nánir og eiga í vanda. Og vekur það því upp togstreitu hjá foreldrum sem eiga börn í vanda að heyra að þeir séu að ofvernda, að þeir hlúi of mikið að barninu, að þeir ættu að láta barnið í hendur annarra eða jafnvel að loka á barnið.

Þegar foreldrar verða varir við vanda hjá börnum sínum er algengt að þeir leiti að sök hjá sjálfum sér, þeir upplifa ýmist meðvitað eða ómeðvitað að vandinn sé á einhvern hátt þeim að kenna, að þeir þurfi að laga vandann og bjarga málum. Á sama tíma eru foreldrar oft að fara í gegnum áfall, djúpa sorg og verulegan ótta, þar sem þeir óttast um barn sitt.

Það fer því oft þannig að á sama tíma og foreldri þarfnast töluverðar hjálpar frá sínum nánustu og frá fagfólki þá er foreldrið líka að upplifa skömm og að efast um eigið ágæti. Skömmin og sektarkenndin samhliða óttanum við álit annarra fær foreldrið því til að einangra sig með vandann og loka þar með á þá hjálp sem kæmi sér best fyrir alla að þiggja.

Í þessu ferli fer oft af stað flókið samspil þar sem hugsanir smitast af varnarháttum einstaklingsins. Algengt er að eftirfarandi hugsanir fari af stað:

“Þetta er fjölskylduvandi sem við leysum hér innan veggja fjölskyldunnar”

“Það er nú betra að íþyngja ekki öðrum með þessum vanda”

“Ef þetta fréttist þá gæti þetta orðið barnaverndarmál og hvað bíður okkar þá?”

“Við gætum lækkað í áliti hjá fólki ef þetta fréttist”

“Við viljum halda trúnað við barnið og höldum þessu því hjá okkur”

Það koma einnig enn fleiri varnarhættir upp en þeir stuðla flestir að því að foreldrar einangra sig með vandann.

Það er mikilvægt að foreldrar átti sig á því að það besta fyrir alla aðila fjölskyldunnar er að rjúfa einangrunina og að leita sér hjálpar. Þannig næst að deila álaginu samhliða því að fá innsýn annarra í vandann sem hjálpar óneitanlega við að finna bestu lausnina.

Flest erum við sammála hugmyndafræðinni sem er á bak við SOS barnaþorpin, þar sem heilt þorp er byggt utan um eitt barn því það er talið eðlilegt að barn þurfi móður, föður, ömmur, afa, frænkur, frændur og samfélag þar sem barnið getur þrifist vel í. Þar er lögð áhersla á að andlegum, tilfinningalegum, líkamlegum og andlegum þörfum barnsins sé mætt.

Eins er um börnin okkar hér á Íslandi, börnin okkar! Þau þurfa heilt þorp í kringum sig og þegar barnið á í vanda þá þurfa allir að teygja sig út til hvers annars og hjálpast að. Þannig að fólk geti rætt hlutina, stutt hvert annað í stað þess að einangra sig með vandann og óttast dóm annarra.

Það er alveg nógu sárt og alveg nægjanlegt álag að vera nákomin einhverjum sem á í vanda og því ekki á það bætandi að þurfa að vera að kljást við fordóma annarra, hvað þá ótta við álit annarra eða þá skömm vegna aðstæðanna. Hættan er ætíð sú að foreldri einangri sig og þar af leiðandi auki á vandann. það er ekki hagur barnsins að það sé pukrað með þessi mál.

Ég fagna því alltaf þegar foreldrar leita sér hjálpar og þá sérstaklega þegar foreldrar fara í foreldrahópa. Þar geta foreldrar hlustað á aðra foreldra sem eru að takast á við svipuð eða jafnvel sömu mál. Þar fær fólk tækifæri á að opna sig og upplifa að það er ekki eitt í þessari aðstöðu. Ekkert er eins áhrifaríkt til að takast á við skömmina og sektarkenndina eins og að hlusta á aðra sem eru í sömu sporum. Þeir foreldrar sem hafa verið að nýta sér hópavinnu vel hafa undantekingarlaust áttað sig á því að einangrun er ekki eins góður kostur og þau héldu. Þau hafa einnig áttað sig á því að flestir sem þau hafa leitað til vilja aðstoða og sýna umhyggju og kærleik í stað þess að dæma. Þessir foreldrar hafa fundið stuðning og mikinn létti við að tala um vandann. Eins er það mjög heilandi að vera innan um fólk sem hlustar á og skilur hvað foreldrið er að upplifa og tilfinningin um það að vera samþykktur í þeirri stöðu sem foreldrar eru í.

Hér er orðtakið “betur sjá augu en auga” vel notanlegt.

Díana Ósk Óskarsdóttir, Guðfræðingur og ICADC ráðgjafi