Áfengis- og vímuefnasýki uppkominna barna

Það veldur mikilli streitu og óöryggi að eiga börn sem eru áfengis- og vímuefnasjúk alveg sama á hvaða aldri þau eru. Við slíkar aðstæður eru foreldrar að upplifa mikinn sársauka og djúpa sorg.
Sársaukinn felst í áhyggjum af framtíð barnsins, kvíða yfir þeim alvarlegu afleiðingum sem gætu orðið og sársauki sem tengist fortíðinni, öllu því sem foreldrar ásaka sig fyrir. Það er líka sársaukafullt að horfa upp á barnið sitt þjást.
Sorg foreldra í þessum sporum er að mörgu leyti lík þeirri sorg sem aðstandendur alzheimer sjúklinga upplifa, því áfengis- og vímuefna sjúk manneskja sem er í neyslu getur verið nálæg líkamlega en fjarverandi bæði andlega og tilfinningalega. Auk þess er persónan ekki sú sama. Í þeim skilningi er oft talað um að fólk missi ástvini sína í fíkn.
Það er foreldrum flókið að takast á við persónu sem þau hafa þekkt frá blautu barnsbeini, persónu sem þau hafa fylgst með vaxa og þroskast og tileinka sér ákveðin gildi og persónueinkenni, persónu sem þau elska og vilja gera allt fyrir, breytast og verða að persónu sem þau þekkja ekki, vita ekki hvernig þau eiga að umgangast og kunna jafnvel ekki við.
Óöryggið tengist þessum breyttu samskiptum, hlutverkum sem breytast en einnig óttanum og óvissunni. Einn daginn er allt gott, kunnugleg samskipti, hlýja og vonin vaknar um að allt verði aftur gott en næsta dag verða hamskipti og allt umpólast. Kuldi, harka og ótti.
Þetta er mikið álag og gríðarleg streita.
Allt reynir þetta á sambandið og tryggðarböndin. Því er mikilvægt að hjón eða par standi saman, að foreldrar, hvort sem um er að ræða fóstur, stjúp eða blóðtengsl, standi saman. Styðji við hvort annað með því að tjá sig um eigin líðan og hugsanir, hlusti á líðan og hugsanir hvors annars og geti farið saman í ráðgjöf, stuðningshópa eða á erindi til þess ætluð að aðstoða fólk í þessum aðstæðum. Þrátt fyrir mikilvægi þess að einstaklingar fari á eigin vegum og sæki sér stuðning sjálf hefur reynslan sýnt að þegar parið fer saman geta þau nýtt efni og orð erindis, hóps eða stuðningsaðila til að tjá sig við hvert annað og til þess að leggja áherslu á eða útskýra það sem þau sjálf hafa verið að setja fram.

Ég vona að þið sem fjölskylda getið tekist á við þetta saman og að þið finnið ykkar farveg til þess.
Díana Ósk Óskarsdóttir, sjúkrahúsprestur, ICADC og handleiðari.