Að missa á meðgöngu, í fæðingu eða fljótlega eftir fæðingu

Blessuð sé minning þeirra sem rétt heilsuðu og kvöddu.

Barn er án nokkurs vafa hluti eilífðarinnar – það ber með sér svip frá foreldrum sínum, öfum, ömmum og langforeldrum. Lífið sem kviknar í móðurlífi ber með sér von, eftirvæntingu og drauma til dæmis drauma um stækkaða fjölskyldu. Fjölskyldu þar sem tveir eða fleiri einstaklingar tengjast tilfinningalega, búa við nánd, ást og öryggi. Strax og fréttir berast af þungun byrja fjölskyldumeðlimir að bindast barninu kærleiksböndum. Með hverjum degi meðgöngunnar styrkjast tengslin og væntingarnar. Fjölskyldan öll gleðst yfir tilvist nýja barnsins og fer að hlakka til að fá litla krílið í heiminn. Það verður því mikið áfall og djúp sorg þegar allar vangavelturnar og undirbúningurinn fyrir lífið hverfur skyndilega eins og dögg fyrir sólu. Sá missir er mikill.

Það er misjafnt hvernig við bregðumst við því óvænta og því sem við teljum óyfirstíganlegt. Við manneskjur erum margskonar, höfum ólík viðhorf til lífsins og til dauðans og höfum tileinkað okkur mismunandi bjargráð. Það útskýrir hversu ólík sorgarviðbrögð okkar eru. Mitt í sorgarferlinu erum við viðkvæm, móðgunargjörn og okkur tekst ekki alltaf að vanda okkur í samskiptum einmitt þegar við þráum svo heitt að finna stuðning og umhyggju.

Sorgin við að missa barnið sitt er svo yfirþyrmandi, full af sársauka, vonleysi og þreytu. Barnið sem foreldrarnir og fjölskyldan öll beið eftir fékk ákveðin tíma til að þroskast og vaxa í móðurkviði en lífið fékk ekki að blómstra og þau fengu ekki að tengjast né kynnast krílinu sínu með því að umgangast það.

Sorgin þarf að fá sitt rými, hún þarf að fá að koma og hún þarf að fá að fara. Því er frátekin og tileinkuð stund til að syrgja mikilvæg. Það að gefa sér tíma til að hleypa tilfinningunum fram. Það hefur engum gagnast að forðast sársaukann sem fylgir missinum og sorg sem er látin afskiptalaus veldur enn meiri sársauka. Farsælast er að gangast við tilfinningum sínum og takast á við sorgina og læra að lifa með reynslunni sem missirinn felur í sér.

Það getur verið sárt að elska. Það að bindast öðrum tryggðarböndum getur verið sárt. Af því að við vitum að við getum misst. Og jafnvel þótt kærleikurinn beri einnig með sér stærstu sorgina er það trú margra að kærleikurinn sé það afl sem geti gefið fólki kraftinn til að halda áfram.

Guð er kærleikur. Manneskjan getur átt í vandræðum með að skilja Guð og margt fólk upplifir að Guð hafi yfirgefið það. Svo lengi sem einstaklingurinn heldur í kærleikann er von í lífinu og þar með talið Guð. Guð sem í sínu orði segir: Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.

Kærleikurinn er dýrmæt gjöf, ein af stóru gjöfunum sem litli engillinn gaf með sinni tilvist. Því þó krílinu hafi ekki auðnast að eiga líf hér á meðal okkar þá vakti það dýrmætar tilfinningar innra með sínu fólki, foreldrum sínum, sistkynum, ömmum, öfum og öðrum ástvinum, – á skömmum tíma snerti barnið líf alls þessa fólks og fyllti það góðum, hlýjum tilfinningum, gleði yfir tilvistinni og meðgöngunni og vakti með þeim drauma og nýja framtíðarsýn. Tilfinningar og minningar sem geta sefað og huggað þegar sorgin hellist yfir af miklum þunga. Tilfinningar og minningar sem stækka persónu barnsins og styrkja minningu þess.

Blessuð sé minning þeirra sem rétt heilsuðu og kvöddu.

Díana Ósk Óskarsdóttir