„Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“

Það er sannarlega gott að íhuga þessa fullyrðingu um að við eigum að elska náungann eins og okkur sjálf. Í Biblíutextanum virðist það vera gefið að við mannverurnar elskum okkur sjálf. Í gegnum kynni mín af fólki bæði í mínu persónulega lífi og í starfi hef ég oft rekið mig á einstaklinga sem eiga erfitt með að elska sjálfa sig, fólk sem fyrirlítur sjálft sig og einstaklinga sem vilja ekki elska sjálfa sig.
Eins finnst mér fólk gjarnan rugla saman annars vegar því að elska sjálfan sig og hins vegar hugtakinu sjálfselska, sem er oft notað á neikvæðan hátt. Það vill enginn vera sjálfselskur þ.e.a.s. þegar neikvæð merking er lögð í það hugtak.

Það var mér mjög dýrmætt að finna þetta vers fyrir þó nokkrum árum þegar ég var að fást við mikið niðurbrot og lítið sjálfsálit. Ég fagnaði því að ég mætti elska sjálfa mig, að ég hreinlega ætti að gera það. Það var mikil opinberun að átta mig á því að með því að elska mig gæti ég elskað aðra. Þannig túlkaði ég þennan texta fyrir mig og nýtti mér hann til að byggja mig upp. Ég hef einnig notað þessa túlkun mína til að hvetja aðra til þess að stíga út úr sjálfsfyrirlitningu og byrja að elska sjálfa sig.

Þessi texti varð svo enn áhugaverðari fyrir mig þegar ég sá tengingu hans við fjallræðu Krists, vegna þess að í honum er að finna boðorð og kjarna kristna boðskaparins sem Jesú færði okkur um fyrirgefninguna og kærleikann.

En hver er þessi náungi minn?

Ég rakst á skemmtilega sögu inn á netbible sem skilgreinir það á skemmtilegan hátt:

Sagan fjallar um Catherine Booth sem af sumum er kölluð „móðir” Hjálpræðishersins. Booth bjó í London.
„Hvert sem Booth fór, streymdi fólkið að til að hlusta á hana. Prinsessur og hefðarfrúr sameinuðust með fátækum og vændiskonum.”
Eitt kvöld var haldinn fundur með frú Booth fyrir utan London, þar var mikill mannfjöldi samankominn, „skattheimtumenn og syndarar”. Ræða frú Booth á fundinum hafði þau áhrif að margir vildu gefa sig Kristi.
Eftir fundinn var svo haldin veisla á mjög fínum herragarði, frúin þar sagði við Booth: „þessi fundur var hræðilegur”
„Hvað meinarðu?” Spurði frú Booth.
„Ó, þegar þú varst að tala, var ég að horfa á fólkið á móti mér. Andlit þeirra voru svo hræðileg, allavega flest þeirra. Ég held bara að ég geti ekki sofið í kvöld!”
„Nú? þekkið þér þau ekki?” spurði frú Booth og frúin svaraði: „Alls ekki!”
„Jæja, það er áhugavert,” sagði frú Booth. „Ég tók þau nefnilega ekki með mér frá London þau eru öll nágrannar þínir!”[1]
Sem sé náungar.

 [1] Net.bible, 2010