Ert þú elskuverð/ur

Ein leið til að tjá ást er að næra þau sem við elskum. Að elda mat og þjóna. Allt snýst þetta um kærleik. Við þráum öll að vera elskuð og þá helst skilyrðislaust. Við þráum það svo heitt að við leitum jafnvel leiða til þess að vinna okkur inn ást.

Í vinnu minni með konum hef ég séð að allt of oft skortir á sjálfstraust kvenna. Sjálfsmynd þeirra er ekki sterk, það er líkt og afgangar gamalla hugmynda búi enn í viðhorfum þeirra, hugmynda um að konur séu ekki nógu góðar, þær séu ekki vel greindar, ekki rökvissar og geti ekki tekið ákvarðanir. Allt of oft leitast konur við að vera yfirmáta duglegar og skilningsríkar. Þær leggja mikið á sig til þess að líta vel út, þær fara í lýtaaðgerðir og erfiða megrunarkúra, allt til þess að upplifa sig elskuverðar. En hvaða kærleikur eða hvaða elska lifnar við slíkt?

Brotin sjálfsmynd kvenna verður til þess að þær eiga erfitt með að setja mörk. Mörk sem eru undirstaða heilbrigðis. Á sama tíma leitast þær við að þóknast og þjóna öðrum. Elska skaltu náungann eins og sjálfan þig, hlúðu að þér svo þú getir hlúð að öðrum. Þessi setning Biblíunnar hreyfir við mér, þessi skilyrðislausa elska sem Kristur sýndi og sú skýra framsetning að við getum ekki elskað náunga okkar án þess að elska okkur fyrst.

Gefum okkur ást í dag 🙂