Hlutverkin.

Einkenni og hlutverk barna sem alast upp við vímuefnaneyslu eða aðra vanrækslu.

Að alast upp á alkóhólísku heimili eða þar sem vímuefnaneysla eða meðvirkni háir fjölskyldunni, veldur miklu óöryggi, sérstaklega þar sem viðbrögð, reglur og annað verður óútreiknanlegt. Gildi og mörk verða háð neyslunni eða líðan foreldranna hverju sinni og eru því síbreytileg. Í dag á að ræða tilfinningar en á morgun má það ekki. Lífið er stöðug spenna og ekki hægt að reiða sig á að það sama gildi í dag og í gær.
Hér að neðan mun ég kalla fjölskylduaðstæður sem þessar „vanvirkt fjölskyldukerfi“.
Börn sem tilheyra þeim fjölskyldum sem ég hef nefnt hér að ofan þróa með sér leiðir til að lifa af. Hluti af þeirri þróun eru vel skilgreind hlutverk. Þessi hlutverk henta vel á meðan þau eru þróuð en valda miklum erfiðleikum síðar á ævinni. Með því að skoða þessi hlutverk og hvað býr að baki þeim er hægt að byggja upp nýja von og áætlun til betra lífs. Hér að neðan munum við skoða fjögur þessara hlutverka og hvað þau fela í sér.

Hetjan
Í vanvirkum fjölskyldum er iðulega eitt ofurábyrgt barn. Oftast er það elsta barnið. Barnið lærir fljótt að það borgar sig að vera þægt og þóknast þeim fullorðna (umönnunaraðila). Hetjan sér gjarnan um yngri systkini, eldar, lagar til og verslar inn. Hetjan verður oft trúnaðaraðili foreldris/foreldra sinna og á ekki marga jafnaldra að vinum. Barninu líður best með fullorðnum og er oft fullorðinslegt í fasi.

Hetjan gerir sér ekki grein fyrir eigin þörfum og upplifir sig fyrst einhvers virði þegar hún sinnir öðrum. Allt sem hetjan gerir er gert fyrir viðurkenninguna. Hetjur eru ákveðnar og þær telja að þær verði að vinna sér inn rétt til að vera elskaðar og til að vera hamingjusamar. Þessir einstaklingar leggja að jöfnu, það að gera nóg og það að vera nóg. Þau telja að með því að leggja mikið á sig og standa sig vel muni fjölskyldan líta betur út og þar með líða betur. Foreldrar og aðrir hrósa hetjunni og hvetja hana áfram í dugnaði sínum.

Hetjan er oft mjög fær í íþróttum, fær háar einkunnir en er þjökuð af fullkomnunaráráttu. Fullkomnunaráráttan og stjórnunin verður oft að vanda þegar barnið eldist og áttar sig á því að það getur ekki stjórnað lífi allra í kringum sig. Á bak við stjórnsemi hetjunnar er mikið óöryggi, eins er hún með mikla sektarkennd þar sem hún kennir sér um vandamál fjölskyldunnar. Þrátt fyrir viðleitni til að hugsa um aðra og stjórna fjölskyldulífinu mætir hetjan gremju annarra sem veldur því að hún upplifir sig sem píslarvott. Fjölskyldan upplifir að hetjan sé afskiptasöm, ráðrík og telji sig vita allt best, það veldur gremju sem veldur því að hetjan upplifir sig sem píslarvott.

Hetjan setur orku sína í að bjarga öðrum til að forðast eigin vanlíðan. Þessi litli hjálparengill þróar með sér mikla sjálfsstjórn og þegar hetjan eldist sýnir hún mikla fyrirhyggju. Hetjunni finnst veikleikamerki að biðja um hjálp og er þekkt fyrir að gera alla hluti sjálf. Hún nær tökum á stjórninni þegar allt er á suðupunkti. Þar sem hetjan er vön að takast á við flest vandamál á hún það til að sýna óþolinmæði.

Hetjan hefur  leiðtogahæfileika, er dugleg, upptekin og segir sjaldan nei. Það eru ekki margir sem skilja hvað þetta hlutverk íþyngir barninu mikið og hvaða sár það getur myndað. Þetta fólk ruglar gjarnan saman ást og vorkunnsemi og giftast yfirleitt veikum einstaklingum. Hin hliðin á hetjunni er svo píslarvotturinn. Með tímanum fer hetjunni að finnast hún geðveik, hún getur orðið þunglynd og háð lyfjum. Ef þessi þróun heldur áfram mun hetjan einangra sig og hegða sér óskynsamlega. Þegar þessir einstaklingar  takast á við sjálfa sig verður þeirra helsta veikleikamerki það að fara aftur og aftur í súpermann-treyjuna.

Trúðurinn
Eitt barnið virðist fætt með ofvirka kímnigáfu. Það er gott að hafa húmorinn með sér nema þegar hann er notaður til að fela eða verja erfiðar tilfinningar. Trúðurinn gerir allt til að fá fólk til að hlæja, er alltaf að fíflast og vekja á sér athygli, snýr öllu upp í grín og glens til að bæta andrúmsloftið.
Börn í trúðshlutverkinu létta á fjölskyldu vandanum með áhyggjulausu viðhorfi sem hjálpar þeim að lifa af þegar ástandið er slæmt. En fjölskyldutrúðurinn grætur innra með sér á því er enginn efi. Brosir með grátstafinn í kverkunum. Barnið er gjarnan ofverndað af fjölskyldunni því það er oftast litla barnið. Persónuleiki trúðsins breytist eftir því hver á í hlut. Hann reynir að vera vinur allra. Hann lærir að fá sitt fram með kænsku og leitast við að verða bekkjarfíflið. Venur sig á truflandi framkomu. Fær meðaleinkunnir, á marga kunningja en fáa vini. Þetta barn er tilfinninganæmt og reynir allt til að leyna tilfinningum sínum. Því finnst ekki neinn taka mark á sér. Með aldrinum gæti það leiðst út í tilraunir með fíkniefni til að fá viðurkenningu. Trúðurinn hegðar sér eins og hann sé yngri en hann er. Honum finnst þögnin óþægileg, flýr reiði, kann ekki á streitu og á erfitt með innileg sambönd. Trúðarnir giftast gjarnan hetju og verða háðir maka sínum.
Svarti sauðurinn
Vanvirk fjölskylda er í afneitun – enginn vill viðurkenna að vímuefni, áfengi eða meðvirkni valdi öllum vandamálum fjölskyldunnar. Einn fjölskyldumeðlimur tekur því að sér það hlutverk að verða sökudólguri. Hann nær athygli með neikvæðni, gerir uppreisn, er hrekkjóttur og hegðunarvandamál hans eru sýnileg. Öll fjölskyldan trúir að ef svarti sauðurinn tekur meiri ábyrgð, kemur sér ekki í vandræði og hættir að pirra alla þá verður allt í lagi. Á meðan viðhorf fjölskyldunnar er þannig þarf enginn að horfast í augu við hið raunverulega vandamál, „fílinn í stofunni“. Þegar hlutverkið er komið á, reynir barnið stundum að vera þægt en er haldið í hlutverki sínu því hegðun þess beinir athyglinni frá hinum raunverulega vanda. Barninu er kennt um vandamál fjölskyldunnar. Svarti sauðurinn á oft sögu um að hafa orðið fyrir andlegu eða líkamlegu ofbeldi. Niðurstaðan er sú að þessir einstaklingar upplifa að þeir geti engum treyst. Með tímanum byrja svörtu sauðirnir að ögra yfirvöldum, kúga systkini sín, ráðskast með aðra og notfæra sér þá. Þeir byrgja inni tilfinningar sínar, eru hranalegir í framkomu og virðast öruggir með sig. Þeim er illa við reglur og forðast félagslegar kvaðir.

Svarti sauðurinn laðast að  atorkusömu fólki. Þetta eru oft unglingarnir sem “flýja” að heiman. Unglingarnir sem ögra yfirvöldum taka þátt í minni háttar afbrotum og byrja kynmök snemma. Talsverðar líkur eru á að svarti sauðurinn fari að fikta við vímuefnaneyslu, hann er reiður og stöðugt hræddur við að sýna veikleika. Svarti sauðurinn verður þrjóskufyllri, skrópar endurtekið í skóla eða vinnu. Með áframhaldandi þróun aukast svo afbrotin. Þessir einstaklingar eru ekki heiðarlegir í nánum samböndum og giftast oft snemma öðrum „svörtum sauði“ eða “hetju”. Það undarlega er að svarti sauðurinn er oftast sá sem kemur fjölskyldunni í meðferð þar sem hegðun hans kallar yfirleitt fram afskipti frá stórfjölskyldu eða yfirvöldum.

Týnda barnið
Týnda barnið er oftast í miðjunni af eldri og yngri systkinum. Týnda eða rólega barnið á í vanda með að skilgreina hlutverk sitt. Stefna týnda barnsins er að halda ró, að rugga ekki bátnum og vera ósýnilegt. Þannig telur það sig ná að stjórna niðurstöðunni í erfiðum aðstæðum. Týnda barnið elst upp án nándar og því skortir  það samskiptahæfni. Týnda barnið er dundari, dreymir dagdrauma, það dregur sig í hlé, er gjarnan listrænt og verður stundum feitt. Það veit ekki hvernig á að ná athygli og finnst það ekki falla inn í fjölskylduna. Þetta barn er mikið eitt, á í erfiðleikum með að eignast vini í skólanum. Því finnst það útskúfað og að gert sé grín að því.
Barnið er yfirleitt venjulegur nemandi og vekur litla athygli. Þarfir rólega barnsins eru hunsaðar,  þær týnast í ringulreið vanvirku fjölskyldunnar. Fjölskyldumeðlimir eru ánægðir með að barnið unir sér og  taka ekki  eftir því að þetta barn kvartar ekki, tekur ekki þátt, heldur sig til hlés og er dapurt. Mikill tími týnda barnsins fer í að hugsa um hvernig fjölskyldan “á að vera”. Það felur sig og tilfinningar sínar,  hefur lítið sjálfsálit og býr við yfirþyrmandi ótta. Með árunum fer því að finnast að allir ráðskist með sig og einangrast ásamt því að meðhöndla fjölskyldu sína með þögn og höfnun. Áherslan verður á efnislega hluti. Einstaklingur í þessu hlutverki á erfitt með að taka ákvarðanir, er hræddur við að biðja um hjálp og er mjög einmana.Sem ungri manneskju finnst „týnda barninu“ það ekki eiga tilverurétt og finnur einungis tilgang í að þóknast öðrum. Týnda barnið trúir því að hjónaband bjargi því. Þessir einstaklingar eru oft þjakaðir af sjálfsmorðshugleiðingum og þunglyndi.

Hlutverkin breytast.
Börn þróa með sér hegðun og hlutverk sem fer saman við persónuleika þeirra og stundum getur eitt barn tekið að sér nokkur hlutverk. Eflaust geta flest börn fundið sig í öllum hlutverkunum en án efa er eitt þeirra mest áberandi. Hlutverkin skiptast einnig á milli barna og fullorðinna. Börnin verða gjarnan “foreldrar” systkina sinna og jafnvel foreldra sinna. Einnig aðlaga börnin sig að hlutverkunum  t.d. ef eldri systkini fara að heiman. Þegar vandinn leysist  þá verða allir fjölskyldumeðlimir óöruggir og hlutverkin riðlast. Hetjan þarf að gefa frá sér völd, týnda barnið kann ekki að taka athygli og ástúð, svarti sauðurinn veit ekki hvernig hann á að vera og trúðinum finnst allt hellast yfir hann þegar erfiðu tilfinningarnar og alvarlegu málin eru tekin upp á yfirborðið. Enn heldur fjölskyldan uppi þeirri kröfu að allir geri sitt besta til að halda öllu saman. Feluleikurinn heldur áfram þar sem tilfinningar, langanir og þrár verða aðal leyndarmálin. Því er mjög mikilvægt að vera meðvitaður og hunsa ekki þær tilfinningar sem myndast við breyttar aðstæður.

Viðhorfið sem ríkir í vanvirkri fjölskyldu er að biðja aldrei um hjálp sama hvað gengur á og því er lykilatriði að rjúfa einangrunina.

DÓÓ

(Stuðst við Mary Earhart og Dr. DeChello)