Af hverju meðvirkninámskeið?

stattu með þér„Gerðu það góði Guð, gefðu að við megum öll lifa þetta af og að ég komist heim til að hlúa að stelpunum mínum!“ Þetta var ákall mitt þetta örlagaríka kvöld, þar sem ég lá í eyðimerkursandinum mitt á milli Mexíkó og Arizona. Aðeins örfáum dögum síðar, komin í örugga höfn, var ég reið út í Guð og farin að efast um tilgang minn. Þá hljómaði í huga mér: „Af hverju ég?“

Ég hafði lifað góðu lífi í þó nokkuð langan tíma, bati minn frá fíkn og meðvirkni hafði skilað mér sátt við sjálfa mig og ég var örugg í trú minni á Guð. Eftir slysið var ég örvæntingarfull, efins og ósátt. Ég fann mig á stað þar sem ég saknaði sjálfrar mín eins og ég hafði verið fyrir slysið og ég saknaði sambandsins sem ég hafði haft við minn æðri mátt.  …

Meðvirkni er þekkt hugtak í íslensku samfélagi en virðist þó vera mörgum torskilið. Margir velta því fyrir sér hvað meðvirkni er. Í starfi mínu sem ráðgjafi, síðustu 12 árin, hef ég rekið mig á að langflestir sem til mín leita eru að fást við það sem ég kalla meðvirknieinkenni. Oftar en ekki vegna vanlíðanar tengdri erfiðri hegðun, samskiptavanda, fíkn eða geðrænum veikindum.

Einkenni og samskiptamynstur skjólstæðinga minna voru flest sams konar þó þau væru mjög ólík. Mynstur sem ég þekki einnig hjá sjálfri mér. Ég fékk sérstakan áhuga á því að skoða þessi einkenni frekar og finna leiðir til þess að hjálpa þeim sem til mín leita til að öðlast betri lífsskilyrði. Þannig að meðvirkni er og hefur verið mjög ofarlega í huga mér.

… vonast ég til þess að varpa ljósi á hvað meðvirkni er, hvaðan hún kemur, áhrif hennar á líf fólks, hvernig hún birtist og hvernig er hægt að bregðast við henni. Ég vil einnig skoða hvernig er háttað tengingu á milli bata frá meðvirkni og kenningum um persónu- og trúarþroska. Ég á mér þann draum að meðferðaraðilar átti sig á mikilvægi þess að vinna með eigin meðvirkni og geti þar með hjálpað öðrum til þess líka.

(tekið úr ritgerð Díönu Óskar “Sjö plús einn”)