Að elska er að þekkja og að þekkja er að elska

I_WantYouToKnowMe

Það þrá allir að vera elskaðir og að tilheyra. Við þráum það svo heitt að við leitum jafnvel leiða til þess að vinna okkur inn ást. Það er öllum mikilvægt að þjáning þeirra sé tekin alvarlega og hún sé viðurkennd. Hluti lækningarinnar felst í virkri hlustun og opinni umræðu.
Það að elska er að þekkja og að þekkja er að elska. Ást finnst gjarnan í viðurkenningu þeirra sem raunverulega þekkja til okkar.
Viltu virkilega líta á mig? Þekkja mig? Viðurkenna mig? Má ég vera til?!
Eða ætlar þú að segja mér hver ég er án þess að þekkja mig. Viltu kynnast mér, þekkja mig, ná til mín, skilja mig og þar með elska mig? Um leið og við erum séð og fáum rými til þess að vera við sjálf þá upplifum við þessa eftirsóttu skilyrðislausu elsku sem allir þrá.

Sálmur 139 er einstaklega fallegur og hefur hjálpað mér mikið í mínu persónulega lífi. Sálmurinn gaf mér mikið þegar mér fannst myrkrið umlykja mig enda er hann er fullur af von. Það sem heillaði mig hvað mest við sálminn er birtingarmynd þessa nána sambands milli Guðs og sköpunar hans. Guð þekkir mig, hann hefur þekkt mig lengur og betur en ég sjálf.

Sálmur 139 uppfyllir þessa þrá, sem ég nefni hér að ofan, enda aðalinntak sálmsins að mínu mati þetta: Ég kem frá þér, allt sem ég er þekkir þú, jafnvel þó ég grafi mig í gremju þá ertu þar, þú sérð mitt innsta sjálf og gerir samt tilkall til mín eins og ég sé þín. Það er einmitt þessi persónulega tenging sem ég vona að fólk finni. Guð vill vernda hvert og eitt okkar og nærvera hans er alls staðar. Við erum því aldrei ein og í því getum við fundið huggun.
„Elsku Guð allt er í þinni hendi.“

DÓÓ